Niðurlag

Niðurlag

Á árinu 2021 gætti áfram áhrifa Covid faraldursins á rekstur Faxaflóahafna. Reksturinn gekk þó mun betur en áætlað var og skilaði fyrirtækið töluverðum hagnaði af reglulegri starfsemi. Efnahagur Faxaflóahafna er sterkur og fyrirtækið er vel í stakk búið til að mæta ágjöf. Engar langtímaskuldir eru hjá fyrirtækinu en á árinu 2020 var langtímalán fyrirtækisins greitt upp vegna þess vaxtaumhverfis sem var í uppsiglingu.

Áform um Sundabraut hafa verið kynnt og ljóst að verði þau áform að veruleika munu áhrifin verða umtalsverð í Sundahöfn. Vinnu um skipulag Sundahafnasvæðis hélt áfram á árinu og er þeim m.a. ætluð til að bregðast við þeim aðstæðum sem skapast, muni Sundabraut skera svæðið.

Á Akranesi er verið að undirbúa umbætur á hafnaraðstöðu og tryggja að höfnin geti áfram þjónað vel sem fiskihöfn en einnig er verið að líta til annarra tækifæra svo sem í ferðaþjónustu.

Á Grundartanga er áfram verið að undirbúa uppbyggingu iðngarðs með grænum áherslum. Innviðir Grundartanga eru góðir, aðgangur að góðri höfn með stækkunarmöguleikum, aðgangur að raforku, góðum samgöngum og vinnuafli. Faxaflóahafnir ásamt Hvalfjarðarsveit og Þróunarfélagi Grundartanga geta því haldið áfram að þróa starfsemi sína þar og fylgja eftir sýndum áhuga frá aðilum varðandi framleiðslu rafeldsneytis.

Á árinu var innleidd ný öryggis-, heilsu- og umhverfisstefna en fyrirtækið leggur áherslu á að vera leiðandi og til fyrirmyndar á þessu sviði. Fyrirtækið skuldbindur sig til að vinna að stöðugum umbótum í því skyni að auka öryggis-, heilbrigðis- og umhverfisvitund starfsmanna, viðskiptavina og þjónustuaðila sinna. Á þann hátt er áhætta starfseminnar lágmörkuð.

Undirbúningur að nýrri stafrænni stefnu hófst á árinu og verður lögð fyrir stjórn á árinu 2022 til samþykktar. Stefnan verður leiðarvísir fyrirtækisins í framþróun á sviði upplýsingatækni. Fyrirtækið tók sín fyrstu skref í útvistun gagna og samhliða því var tekið upp þráðlaust net á starfsstöðvum fyrirtækisins. Umbætur voru gerðar til að auka áreiðanleika stjórnendaupplýsinga er snúa að rekstri fyrirtækisins.

Markmið fyrirtækisins til framtíðar eru áfram að bjóða góða og skilvirka þjónustu til viðskiptavina sinna og geta mætt kröfum og væntingum um öruggar, grænar og snjallar hafnir.

Reykjavík, 20. júní 2022
Gunnar Tryggvason,
starfandi hafnarstjóri