Fjárfestingar og framkvæmdir

Fjárfestingar og framkvæmdir á árinu 2021

 

Helstu verkefni voru eftirfarandi:

 

  • Í Gömlu höfninni í Reykjavík var áfram unnið að framkvæmdum við Faxagarð. Farið var í endurnýjun lagna undir bryggjunni sem áður hafði verið frestað en sú framkvæmd mun klárast á árinu 2022. Einnig var boðinn út rafbúnaður fyrir landtengingar á Faxagarð sem verður settur upp á árinu 2022. Byrjað var á framkvæmd við nýjan hjólastíg meðfram Fiskislóð auk þess sem lýsing var endurnýjuð og endurhönnuð meðfram götunni. Efnsikaup og framkvæmd við endurnýjun Verbúðabryggju voru boðin út á árinu. Framkvæmdir við niðurrif eldri bryggjunnar fóru af stað um mitt árið en vegna seinkunar á afhendingu á efni þurfti að stöðva framkvæmdir við uppbyggingu nýrrar bryggju í lok árs á meðan beðið er eftir efninu. Reiknað er með að framkvæmdir geti farið af stað aftur í mars og klárist á árinu 2022. Malbiks yfirlag var lagt á suðurhluta Grandabakka. Aðkoma að verkstæði slippsins við Ægisgarð var malbikuð.
  •   Í Sundahöfn var klárað að setja upp innsiglingamerki á Gufuneshöfða og um leið ný innsiglingarlína tekin í notkun. Lóðagerð við Sægarða 1 var kláruð. Lóðin verður undir nýja aðveitustöð Veitna og var afhent Veitum í lok árs. Undirbúningsvinna fyrir framtíðarþóun Sundahafnar hélt áfram með gerð umhverfisskýrslu sem lögð var inn til Skipulagsstofnunar í lok árs auk þess sem erlendir ráðgjafar voru fengnir til að skoða heildarmynd svæðisins m.t.t. hafnarmannvirkja, landnotkunar, rekstrar og fleiri atriða. Undirbúningur fyrir nýja farþegaaðstöðu hófst á árinu þar sem gert er ráð fyrir að hægt sé að taka á móti farþegum sem fara um höfnina á ferð sinni með erlendum farþegaskipum. Farþegaaðstaðan mun m.a. hýsa landamæraeftirlit, öryggisleit, farangursskönnun, farangursgeymslu, aðstöðu fyrir farþega ásamt fleiru sem þarf fyrir starfsemina. Unnið var að undirbúningi landtenginga flutningaskipa við Sundabakka í samstarfi við skipafélögin. Malbikaðar voru götur við Barkarvog og Kjalarvog auk þess sem malbiks yfirlag var sett á hluta Vogabakka. Keyptir voru nýir fenderbelgir fyrir Skarfabakka til að mæta þörfum farþegaskipa.
  • Á Grundartanga var unnið að ýmsum smærri undirbúningsverkum við þróun og úthlutun lóða en framkvæmdir bíða þess að hreyfing komist á úthlutanir lóða fyrir starfsemi á svæðinu. M.a. var farið í efnisvinnslu á vestursvæðinu til að eiga efni til framkvæmda á svæðinu. Boðin var út framkvæmd á endurnýjun þekju á 1. áfanga Tangabakka en var öllum tilboðum hafnað og verkinu frestað og er til endurskoðunar. Farið var í endurheimt votlendis á Katanesi með því að fylla í skurði á landinu.
  • Á Akranesi var áfram unnið að undirbúningi að endurnýjun og lengingu fremsta hluta Aðalhafnargarðs. Í framkvæmdinni felst að reka stálþil utan á fremsta hluta Aðalhafnargarðsins og lengja hann um 110 metra þannig að lengd viðlegu við þennan hluta garðsins verður um 220 metrar. Efnisútboðið var auglýst í lok árs og er áætlað að bjóða framkvæmdina út á árinu 2022.
  • Annað: Á árinu 2021 var gerður kaupsamningur milli Faxaflóahafna sf og Reykjvíkurborgar um sölu á Hafnarhúsinu,Tryggvagötu 17, Reykjavík, á 2.184,8 m.kr. Afhending eignarinnar fer fram 15. júní 2022.Innborgun 100 m.kr. vegna sölunnar er færð meðal skammtímaskulda.

Með nettó fjárfestingu er átt við fjárfestingu í varanlegum rekstrarfjármunum að frádregnum seldum rekstrarfjármunum og lóðasölu.