Inngangur

Inngangur

Árið 2021 varð  rekstrarniðurstaða mun betri en áætlun gerði ráð fyrir þrátt fyrir að áhrifa COVID19 faraldursins gætti enn.  Aukning í vöruflutningum og komur skemmtiferðaskipa ollu því að tekjur ársins urðu talsvert hærri en gert er ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Nánar má lesa um áhrif þessa í umfjöllun um afkomu ársins. 

Á árinu 2021 var gerður kaupsamningur milli Faxaflóahafna og Reykjavíkurborgar um sölu á Hafnarhúsinu, Tryggvagötu 17 í Reykjavík. Afhending hússins fer fram á miðju ári 2022 en fyrirhugað er að byggja nýjar höfuðstöðvar fyrir starfsemi Faxaflóahafna á næstu árum. Þar til nýjar höfuðstöðvar eru tilbúnar, mun starfsemi félagsins áfram vera hýst í Hafnarhúsinu.
Lenging aðalhafnarbakkans í Akraneshöfn er stærsta verkefni Faxaflóahafna um þessar mundir. Framkvæmdir áttu að hefjast á árinu 2020 en var frestað vegna faraldursins en skrifað var undir kaupsamning á stálþili og stögum nú í vor og er áætlað að framkvæmdin verði boðin út árið 2022.  Viðræður eru í gangi við nokkra aðila varðandi áframhaldandi uppbyggingu iðnaðar á Grundartanga. Faxaflóahafnir eru þátttakandi í Þróunarfélagi Grundartanga en markmið félagsins er að vinna stefnu um framtíðarstarfsemi á svæðinu á grundvelli nýsköpunar og umhverfisvænna lausna.

Fjölgun ferðamanna sem fara um höfnina kallar á bætta aðstöðu fyrir farþega. Undirbúningur fyrir nýja aðstöðu hófst á árinu og mun farþegaaðstaðan m.a. hýsa landamæraeftirlit, öryggisleit, farangursskönnun, farangursgeymslu ásamt fleiru sem þarf fyrir starfsemina.

Áfram var unnið að mati á umhverfisáhrifum verkefna Sundahöfn sem hófst á árinu 2020 og áætlað er að þeirri vinnu ljúki á árinu 2022. Í því mati er lenging á Sundabakka, Vogabakka og Skarfabakka auk landfyllinga í Vatnagörðum og við hreinsistöð í Klettagörðum. Frekari dýpkun í Sundahöfn og innsiglingu hennar vegna stækkandi skipa var einnig hluti af matinu.  Á árinu 2020 var skrifað undir samning við umhverfisráðherra, Veitur, Eimskip og Samskip um fjármögnun landtenginga fyrir gámaskip í Sundahöfn.  Undirbúningur hófst á árinu við að landtengja gámaskip við Sundabakka. Áætlað er að fyrsta gámskipið tengist um mitt ár 2022. Einnig var unnið að endurnýjun lagna á Faxagarði og er áætlað að þeirri vinnu ljúki vorið 2022. Í lok ársins var boðin út landtengibúnaður fyrir Faxagarð og er áætlað að verkefninu ljúki í byrjun árs 2023. Faxaflóahafnir þurfa að ráðast í töluverðar fjárfestingar svo landtengja megi öll skip sem hingað koma á næstu árum og þá sér í lagi stærstu farþegaskip.  Vinna er hafin á þarfagreiningu verkefnisins og áframhaldandi þróun. Sambærileg vinna fer fram í öðrum höfnum í Evrópu og fylgst er grannt með þróuninni þar. Samgönguráðherra skilaði tillögu um legu Sundabrautar á árinu sem gerir ráð fyrir þverun Kleppsvíkur með 30 metra hárri brú.  Ljóst er að slík framkvæmd mun hafa töluverð áhrif á starfsemi hafnarinnar við Vogabakka.   Faxaflóahafnir hófu vinnu við heildarskipulag svæðisins m.t.t. þeirrar framkvæmdar. 

Eignaraðilar Faxaflóahafna sf. og eignarhlutir þeirra voru í lok desember 2021 eftirfarandi:

Reykjavíkurborg 75,5551%
Akraneskaupstaður 10,7793%
Hvalfjarðarsveit 9,3084%
Borgarbyggð 4,1356%
Skorradalshreppur 0,2216%