Ávarp hafnarstjóra

Óvissa er fylgifiskur alls rekstrar. Flest fyrirtæki geta borið vitni nú eftir að farsótt hefur skekið alla heimsbyggðina. Viðbrögð og forvarnaraðgerðir Faxaflóahafna skiluðu því að áhrif farsóttarinnar á starfsfólk og rekstur urðu ekki veruleg. Áætlanir Faxaflóahafna fyrir árið 2021 báru einnig merki þeirrar varúðar og þess aðhaldssem markaðar voru af reynslu fyrra árs. Hins vegar kom fljótlega í ljós á rekstrarárinu að tekjur af flutningastarfsemi yrðu nokkuð umfram þær áætlanir og einhverjar tekjur yrðu af komu skemmtiferðaskipa. Afkoma rekstar var því töluvert betri en áætlanir gerðu ráð fyrir og ber því að fagna.

Tvö fjarveruslys voru á árinu og tólf slys og málefni tengd vinnuvernd og er það fækkun frá árinu áður. Átta mengunaratvik voru tilkynnt samanborið við þrettán árið áður.

Á árinu urðu stjórnendur Faxaflóahafna varir við áherslubreytingu hjá útgerðum skemmtiferðaskipa, semsækjast nú í auknum mæli eftir því að stunda s.k. farþegaskipti í okkar höfnum. Í farþegaskiptum felst að farþegar fari frá borði við komu til hafnar og yfirgefi skipið fyrir fullt og allt, en nýir farþegar komi að því búnu um borð. Til að þjónusta skip sem þetta stunda þarf aðstöðu fyrir innritun, vopnaleit,farangursleit auk landamæraeftirlits. Þessi þróun er fagnaðarefni fyrir fyrirtækið og samfélagið í kringum okkar hafnir því samfélagslegar tekjur af hverjum einstaklingi í farþegaskiptum eru töluvert meiri en þegar sá hinn sami er eingöngu hér í dagsdvöl.

Faxaflóahafnir, í samstarfi við Eimskip, Veitur og ríkið, hófu á árinu framkvæmdir við landtengingu stærstu gámaflutningaskipa sem til hafna okkar sigla í reglulegum siglingum. Ráðgert er að tengingin, sem staðsett verður á Sundabakka, verði tekin í notkun á haustmánuðum 2022. Undirbúningur á styrkingu landtenginga á öðrum bökkum heldur áfram.

Samtal við ríki og borg um mögulega legu Sundabrautar hélt áfram á árinu og ákváðu stjórnendur Faxflóahafna að hefja undirbúning að viðbrögðum ef til þess komi að þverun Kleppsvíkur verði í framhaldi af legu Holtavegar. Ljóst er að verði sú lega fyrir valinu verður að færa til a.m.k. hluta þeirrar starfsemi sem nú er við Vogabakka.

Fjárhagsstaða félagsins er áfram sterk og er það vel í stakk búið fyrir þær áskoranir tækifæri sem framundan eru. Við leggjum áherslu á að reka öruggar, grænar og snjallar hafnir og til að svo megi áfram verða er ljóst ráðast verði í töluverðar fjárfestingar á næstu árum.

 

Gunnar Tryggvason
starfandi hafnarstjóri