Ávarp stjórnarformanns

 

Faxaflóahafnir hafa skapað sér orðspor sem traust og vel rekið fyrirtæki sem gegnir lykilhlutverki í að greiða götu blómlegs atvinnulífs á höfuðborgarsvæðinu, ekki síst í gegnum Sundahöfn sem með sanni má kalla eina helstu lífæð atvinnulífs í landinu. Hin síðari ár hefur áherslan á grænar lausnir aukist hröðum skrefum enda er það metnaðarmál stjórnenda Faxaflóahafna að reka samfélagslega ábyrgt fyrirtæki sem tekur fullan þátt í orkuskiptum og aðgerðum til að vernda umhverfið á tímum lofslagsbreytinga. Liður í þeirri þróun er rafvæðing hafnanna þar sem sögulegt skref náðist fyrir nokkru með samkomulagi ríkisins, Reykjavíkurborgar, Veitna, stóru skipafélaganna og Faxaflóahafna um rafvæðingufraktskipa í Sundahöfn. Á komandi hausti verður landtengingin fyrir skip Eimskips tilbúin til notkunar og þá verður mikilvægum áfanga náð. Stóra verkefnið framundan verður að leita eftir sambærilegu víðtæku samstarfi um landtengingu skemmtiferðaskipanna sem yrði mikilvægur áfangi í að bæta loftgæði og draga úr losun á skemmtiferðaskipanna á athafnasvæði Faxaflóahafna. Faxaflóahafnir verða áfram tilbúnar að leggja sitt af mörkum til að slíkt samstarf geti komist á og þar mun reynslan af landtengingum fraktskipanna koma í góðar þarfir.

Mikil vinna hefur verið lögð í stefnumótun og þróunarvinnu um framtíðarskipan Sundahafnar og hefur hún skilað áhugaverðum tillögum sem unnið verður áfram með í framhaldinu. Þar er leiðarljósið að tryggja áframhaldandi gott og árangursríkt samstarf við helstu viðskiptavini á svæðinu samhliða því að stíga skref í þágu grænnar uppbyggingar og heilbrigðrar samkeppni á svæðinu. Áhugaverð stefnumótun stendur sömuleiðis yfir á Grundartanga þar sem Þróunarfélag Grundartanga hefur haft forgöngu um mótun tillagna um hringrásargarð á svæðinu sem væri í anda loftslagsstefnu stjórnvalda og vel til þess fallin að bæta og styrkja ásýnd svæðisins. Faxaflóahafnir hafa auglýst lóðir á Grundartanga til umsóknar og hafa fjölmargir aðilar lýst áhuga á þeim með fjölbreytta atvinnustarfsemi í huga. Ljóst er að sóknarfærin á svæðinu eru mikil.

Tímamót verða á árinu 2022 með nýrri eigendastefnu Faxaflóahafna sem mun m.a. leiða til breytinga á samsetningu stjórnar. Breytingarnar munu hafa í för með sér aukna áherslu á faglega stjórnun fyrirtækisins sem er fagnaðarefni og í anda nútímalegra stjórnarhátta. Enginn vafi er á því í mínum huga að framtíð Faxaflóahafna er björt og mörg tækifæri fyrir fyrirtækið til að láta gott af sér leiða í þágu samfélagsins og atvinnulífs á athafnasvæði fyrirtækisins. Ég vil að lokum þakka stjórnendum og starfsfólki Faxaflóahafna fyrir góð störf og árangursrík á krefjandi tímum heimsfaraldurs.

Skúli Helgason
formaður stjórnar Faxaflóahafna.